Leiðbeiningarritið Góðir staðir

Leiðbeiningarritinu er ætlað að byggja brú á milli sveitarfélaga og ríkis annars vegar og hönnuða og framkvæmdaaðila hins vegar. Ritinu er einnig ætlað að vera hvatning til þeirra fjölmörgu aðila sem standa að uppbyggingu ferðamannastaða á Íslandi til að vanda til verka.

Í ritinu eru skilgreindar raunhæfar leiðir og aðferðir við uppbyggingu. Áhersla er lögð á vistvæna hugmyndafræði, vandaðar greiningar og eflingu gæðavitundar ferðaþjónustuaðila, almennings og aðila sem að ákvörðunartöku koma. Markmiðið er að íslenskir ferðamannastaðir verði landi og þjóð til sóma og að horft sé til heildarmyndar og sérstöðu staða, svo unnt verði að draga fram þá upplifun sem þar er að finna.

Ritið er samstarfsverkefni Ferðamálastofu, Framkvæmdasýslu ríkisins og Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Í raun má segja að ritið hafi sýnt sig sem fyrirmyndaverkefni í samhentri stjórnsýslu, þar sem unnið var þvert á stofnanir og ráðuneyti og markmið og ábyrgð voru skýr frá upphafi.

Í verkefnastjórn sátu Halldóra Vífilsdóttir arkitekt faí f.h Framkvæmdasýslu ríkisins, Kristín Gunnarsdóttir verkefnastjóri hjá Hönnunarmiðstöð og Sveinn Rúnar Traustason landslagsarkitekt fíla, fh. Ferðamálstofu, en ritstjóri ritsins er Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt faí. Hönnun ritsins annaðist Ármann Agnarsson grafískur hönnuður FÍT og ljósmyndir Torfi Agnarsson hjá Myndveri.